Lögreglan í Kaupmannahöfn eftir skotárás í Norrebro í vikunni. (Mynd: danska lögreglan):
Danir taka upp landamæraeftirlit gegn Svíþjóð eftir að maður var skotinn til bana í vikunni í Norrebro í Kaupmannahöfn. Þetta tilkynnir ríkisstjórn Danmerkur.
Dönsk stjórnvöld voru áður búin að vara við auknu landamæraeftirliti við Svíþjóð eftir að söluturn var sprengdur í loft upp á Hans Knudsens Plads í Kaupmannahöfn. Danski dómsmálaráðherrann Peter Hummelgaard segir „sænska barnahermenn“ koma til Danmerkur til að fremja glæpi. Hann sagði þá:
„Glæpahópar í Danmörku ráða sænska barnahermenn – eins og ég kalla þá – til að framkvæma glæpsamleg athæfi,“
Gengjaofbeldi í Danmörku er oft framið af glæpamönnum frá Svíþjóð. Hummelgaard hefur áður varað við því að verði ekkert að gert eigi Danmörk á hættu að falla í „sænska ástandið.“
Maður drepinn og kona særð
Í vikunni var enn ein skotárásin í Norrebro í miðborg Kaupmannahafnar. Maður og kona voru skotin, 43 ára karlmaður var myrtur og 42 ára kona lífshættulega særð. Lögreglan í Kaupmannahöfn skrifar á samfélagsmiðlum:
„Dökkhærður maður klæddur dökkum fötum sást hjóla af vettvangi eftir morðið. Óljóst er hvort þetta ofbeldisverk, eins og svo mörg önnur, tengist Svíþjóð.“
Núna taka Danir upp strangara landamæraeftirlit gegn glæpaklíkulandinu í norðri. Auk athugunar á umferð við Eyrarsundsbrúna þá munu eftirlitsmyndavélar mynda númeraplötur allra farartækja. Peter Hummelgaard dómsmálaráðherra segir við danska TV2:
„Þetta er alvarleg staða og við munum aðstoða lögregluna og gera allt sem við getum til að leysa málið.“