Bless, bless, Bjarni Ben

Bjarni Benediktsson tekur pokann sinn og er það vel. Hann hefði mátt gera það fyrr og varla væri hann að hætta núna ef allt er í svona fínu lagi eins og hann skrifar í kveðjubréfi sínu á Facebook? Bjarni hefur notað orðið „sigur“ um að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði 5% fylgi og er í fyrsta sinn í sögunni kominn undir 20% fylgi og ekki lengur stærsti flokkurinn á þingi. Við skulum muna dóm þjóðarinnar sem hreinsaði burtu Vinstri græna og Pírata.

Bjarni Benediktsson var sá maður sem gerði formann Vinstri Grænna, Katrínu Jakobsdóttur, kleift að verða forsætisráðherra landsins og leiða stefnu vinstri grænna yfir allt samfélagið. Það er fyrst og fremst sú stefna sem þjóðin hafnaði í síðustu alþingiskosningum. Talandi um bjarnasigra, þá þyrfti Sjálfstæðisflokkurinn einungis þrjá slíka „sigra“ í viðbót til að detta út af þingi.

Minnti á sænskan krata

Bjarni Benediktsson hefur oft minnt á sænska krata sem sitja í ríkisstjórn en fara síðan í „kröfugöngu“ gegn sjálfum sér 1. maí. Þótt Bjarni Ben. gangi ekki með ASÍ niður Laugaveg, þá segir hann til dæmis eins og í Spursmálum Morgunblaðsins nýlega, að skattar séu of háir á Íslandi. Hann hefur setið í ríkisstjórn frá því 2013, þar af flest árin sem fjármálaráðherra sem hefði átt að vera trygging fyrir því, að stefnumál Sjálfstæðisflokksins væru í forgangi. En þá var það náttúrulega Covid eða eitthvað annað…. það er endalaust hægt að afsaka sig.

En þegar gengið hefur verið á hann og flokksforystuna um vöxt báknsins, útlendingamálin, Hvalveiðimálið m.fl. þá talar hann um stöðu Sjálfstæðisflokksins eins og flokkurinn væri í stjórnarandstöðu. Málin ná ekki fram að ganga vegna þess að „samstarfsflokkarnir vildu þetta ekki.“ Þannig hefur verið mikilvægara að vera í ríkisstjórn heldur en að láta sjálfstæðisstefnuna tala. Engin furða að þeim fækkar stöðugt sem sjá einhvern mun á flokkunum. Einu stjórnmálin er að fá völd og halda þeim. Málefnin mega bíða….

Upphitað rúm fyrir örlaganornirnar

Sannleikurinn er sá að Guðlaugur græni og Bjarni Ben hafa verið á fullu með Vinstri grænum í því að innleiða alþjóðahyggjuna inn í ríkisbúskapinn á undanförnum árum. Það er þjóðinni afskaplega dýrt og mun stóraukast enn frekar með þeirri örlaganornastjórn sem núna fer upp í vel búið og hlýtt rúm alþjóðastefnunnar sem fyrrverandi ríkisstjórn skilur eftir.

Guðlaugur Þór leiðtogi loftslagsins fór alveg hjá sér eftir að hafa farið í ræðupúlt Sameinuðu þjóðanna og orðið „heimsfrægur.“ Bæði hann og Bjarni Benediktsson hafa lofað heimsendadeild Sameinuðu þjóðanna auknum fjármokstri af launum hart stritandi landsmanna. Ný valkyrja utanríkismála framfylgir bara þessari alþjóðastefnu Íslands sem ákveðin er af djúpríkinu í Washington, ESB, SÞ, WHO og vefurunum í Davos. Búið er á vakt Bjarna Benediktssonar að breyta Íslandi úr friðsömu ríki í beinan stríðsaðila með sóun skattfé landsmanna í vopn til Úkraínu. Hér hefur Sjálfstæðisflokkurinn tekið vinstri beygju frá lýðveldinu og fólkinu í landinu sem eflaust skýrir eitthvað af fylgistapi flokksins.

Já, og svo var það Covid…..

Halda mætti að íslenskir stjórnmálamenn hafi fengið alþjóðasprautu gegn sjálfstæðri hugsun, því stjórnarstíllinn frá tíð aðildarumsóknar Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna til Evrópusambandsins hefur einkennst af „bráðabirgðalausnum“ til að halda skipinu fljótandi í öllum beygjum framhjá stjórnarskrá lýðveldisins. Engu er líkara en að íslenskir stjórnmálamenn séu í innbyrðis keppni um það hver geti verið duglegastur að framkvæma vilja erlendra stofnana.

Covid er skýrt dæmi, neyðarástandi lýst yfir til að koma harðræði á þjóðina, lama atvinnulífið og drepa alla starfsgleði. Þetta módel var innleitt gagnrýnislaust að skipun að utan. Þakkirnar létu ekki standa á sér. Skrautlið ESB hélt stutta sýningu í Hörpu á kostnað skattgreiðenda til að íslenskir stjórnmálamenn gætu strokið sér um kviðinn og dæst af ánægu yfir sigri sínum að hafa komið Íslandi á radar helstu alþjóðastofnana. Sóknin í embætti erlendis eins og hjá mannréttindanefnd SÞ er ekki einleikin. Kórónan á verðlaunum fyrir vel unnin störf við að koma Íslandi undir alþjóðastofnanir er svo ný staða Katrínar Jakobsdóttur hjá hinni alræmdu alþjóðaheilbrigðismálastofnun. Glóbalizminn sér um sína, peningarnir eru hvort eð er sóttir úr vösum skattgreiðenda sem fá litlu sem engu ráðið.

Betra seint en aldrei

Eiginlega má halda því fram, að Bjarni hafi teymt Sjálfstæðisflokkinn frá uppruna sínum í þjónkun við erlent yfirvald og viðskiptahagsmuni ákveðinna fyrirtækja. Einnig má spyrja um þann stjórnarstíl að vilja bara umgangast já-fólk sem núna fellir opinberlega krókódílatár, þegar „leiðtoginn mikli“ hefur hætt. Ekki furða að báknið vex. Í Kanada sagði Trudeau líka af sér í dag og þar ríkir fögnuður um land allt.

Athyglisvert verðu að fylgjast með þróuninni hjá Sjálfstæðisflokknum og undirstrikað að það var hárrétt hjá Bjarna Ben að hætta, þótt hann hefði alveg mátt gera það fyrr. En betra seint en aldrei.

Fara efst á síðu