Björn Bjarnason eykur við hrun Sjálfstæðisflokksins

Því miður fyrir Sjálfstæðisflokkinn og fullveldissinnaða sjálfstæðismenn, þá hefur Björn Bjarnason bitið sig fast í skjaldarrönd ESB með yfirlýsingu um stuðning við frumvarpið um bókun 35. Það er alltaf jafn leiðinlegt að sjá góða menn króast inni í afkima lagaflækju án tengsla við hjarta og sál íslensku þjóðarinnar eins og Björn Bjarnason, því miður er orðinn fastur í. Það er líka merkilegt að sjá mann sem segist vandaður lögmaður að vísa eigi lögum Alþingis til Hæstaréttar eftir að þau hafa verið afgreidd sem lög frá Alþingi með undirskrift forseta Íslands.

Björn Bjarnason skrifar:

„Sé alþingi með þeirri breytingu sem nú er boðuð að brjóta gegn stjórnarskránni getur hæstiréttur ógilt lagagreinina.“

Björn Bjarnason veit manna best að metnaður Alþingis á að vera að senda frá sér lög sem eru í samræmi við og standast stjórnarskrá lýðveldisins. Þannig er Alþingi hægur leikur að fá álit Hæstaréttar á frumvarpinu áður en Alþingi afgreiðir bókun 35 endanlega. En með því yrði sú áhætta tekin að Hæstiréttur gengi gegn frumvarpinu og ríkisstjórnin yrði að draga það til baka. Margir lögfróðir menn eins og Jón Steinar Gunnlaugsson, Arnar Þór Jónsson og aðrir mætir aðilar hafa afdráttarlaust skrifað að frumvarpið gangi gegn stjórnarskránni og að fyrst verði að breyta stjórnarskránni til að frumvarpið geti orðið að lögum.

Björn Bjarnason segist vera á móti ESB-aðild Íslands. Hann veit sjálfur mætavel að ESB í dag er ekki það sama og þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fór í platferðina til Brussel sem ESB segir að sé í fullu gildi í dag. Fordæmagefandi sjálfkrafa undirlægjuháttur við reglugerðaverk ESB sem alþingismenn moka daglega yfir íslensku þjóðina verður ekki til að minnka áhrif ESB á Íslandi. Þvert á móti er lagasetning bókunar 35 liður í að herða kverkatök Brussel-skrímslsins á Íslandi og skref í átt að endanlegri innlimun lýðveldisins og þar með afnámi þess fullveldis sem við höfum áður búið við.

ESB vinnur ásamt ríkisstjórninni að því að mylja andstöðuna við ESB niður í sjávarútveginum og landbúnaðinum og gera greinarnar veikburða og þar með háðar ríkinu svo meðfærilegra verði fyrir ESB að koma eignarhaldi sínu yfir og taka stjórnina á íslensku fiskmiðinum og orkulindum landsmanna. Með þeirri þróun sem alþingismenn hafa gert að hefð í umgengni við reglugerðarfargan ESB, mætti segja að sjálfsákvörðunarréttur íslensku þjóðarinnar hafi verið takmarkaður við að skipta um þá menn sem þýða reglur ESB yfir á íslensku og stimpla sem lög frá alþingi á fjögurra ára fresti. Björn Bjarnason eins og margir alþingismenn sérstaklega Sjálfstæðisflokksins vita að slíkur praxis er andstæður stjórnarskrá Íslands.

Menn virðast hafa blindast af hraða þróunarinnar og ýmsir eins og Björn Bjarnason sjá ekki út fyrir op brunnsins sem þeir hafa fallið í. Heimablinda kallast það og sýnir vanda málsins, þegar eigin flokksmenning í innbyrðis valdatafli leiðir til slíks öngstrætis.

Björn Bjarnason hefur það helst til síns máls að hann er ekki einn sjálfstæðismanna á botninum í sama brunni, með honum er til dæmis Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sem upprunalega lagði frumvarpið um bókun 35 fram og aðrir tilheyrandi þessum hópi flokksmanna. Hún hefur reynst landsmönnum afar illa með því að loka sendiráði Íslands í Mosku og aldrei hefur hún upplýst um hverjir þökkuðu henni fyrir það og hvað hún fékk í staðinn.

Sú spurning sem vert er að setja fram en Sjálfstæðismenn þora ekki að ræða opinberlega er hið snarminnkandi fylgi flokksins. Gæti 18 – 20% fylgi flokksins nú sem er minna en helmingur þess fylgis sem flokkurinn hafði áður, mögulega tengst þeim ásetningi og samstarfsvilja sumra leiðandi sjálfstæðismanna að vera fremstir allra flokka í að innleiða reglugerðir ESB á Íslandi? Getur verið að þjóðin sem er andsnúin inngöngu í ESB tengi slíkt háttalag við þá vegferð sem endar í inngöngu í ESB?

Annað dæmi er líka, að Bjarni Benediktsson lýsti því yfir að samningstillaga hans í Icesave væri besta útkoman sem íslenska þjóðin ætti völ á en þjóðin valdi dómsstólsleiðina í staðinn landsmönnum til heilla því sú útkoma sýndi sig vera langtum heillavænlegri en tillaga Bjarna Benediktssonar.

Það þarf eitthvað meira til en formannsskipti í Sjálfstæðisflokknum til að snúa þessari þróun við. Það þarf að koma til stefnubreyting sem gengur út frá vilja þjóðarinnar og er í takt við hjarta hennar. Þjóðin vill ekki glata árangri forfeðranna, 200 mílna landhelgi og grænni orku Íslands sem ekki á að rugla saman við græna svindlið sem í gangi er með fyrirsjáanlegu tapi vindorkuvera. Einmitt það síðarnefnda er einnig dæmi um dugnað þess hóps sjálfstæðismanna sem gleypa allt hrátt frá ESB og SÞ.

Formanni flokksins er mikill vandi á höndum. Hún getur innsiglað endanlegt hrun flokksins sem Sjálfstæðisflokks með því að samþykkja bókun 35 eða hún getur hafið erfiða en einu mögulegu flokksgönguna að endurheimtingu sjálfstæðissálarinnar sem enn brennur í hjörtum Íslendinga.


Fara efst á síðu