Mynd: Íris Erlingsdóttir og Dr. Eithan Haim á Genspect ráðstefnunni í Albuquerque í New Mexico.
Dr. Eithan Haim er bandarískur barnaskurðlæknir sem af miklu hugrekki fletti ofan af leynilegum „kynstaðfestingaraðgerðum“ á barnaspítala í Texas. Íris hitti Dr. Haim á Genspect ráðstefnunni í Albuquerque.
Dr. Haim var í sérnámi á Texas Children’s Hospital þegar hann uppgötvaði að sjúkrahúsið var að framkvæma varanlegar (óafturkræfar) svokallaðar kynstaðfestingaraðgerðir á börnum, „sum aðeins ellefu ára gömul,“ sagði Dr. Haim.
Aðgerðirnar sýndu að spítalinn hafði byrjað á ný að framkvæma kynstaðfestingaraðgerðir sem yfirmenn spítalans höfðu sagst hafa stöðvað í mars 2022 í kjölfar rannsókna ríkisins á refsiverðri barnamisnotkun. Ef Dr. Haim hefði ekki „blásið í flautuna“ og haft samband við blaðamanninn Christopher Rufo hjá City Journal, væri almenningur algjörlega óupplýstur um endurupptöku þessarar hræðilegu tilraunastarfsemi á börnum.
„Á næsta ári aukst reyndar tíðni þessara aðgerða á sjúkrahúsinu,“ sagði Dr. Haim, „hundruð fleiri börn fengu hormónameðferðir. Ég ákvað að ég yrði að tala við Rufo, því mér fannst þetta jafngilda barnamisnotkun.“
Innan við viku eftir að grein Rufo um það sem var að gerast á Texas-sjúkrahúsinu birtist í City Journal í maí 2023, samþykkti þingið í Texas lög sem staðfestu að svokallaðar kynstaðfestingaraðgerðir á börnum væru ólöglegar í Texasríki. Eldsnemma að morgni 23. júní 2023, mættu vopnaðir umboðsmenn frá eftirlitsdeild bandaríska Heilbrigðisráðuneytisins á heimili Dr. Haim og kröfðust þess að yfirheyra hann á staðnum um „sjúkraskrár.“
„23. júní, 2023 var dagurinn sem ég útskrifaðist úr sérnámi mínu,“ sagði Dr. Haim, „einn mikilvægasti dagur í lífi manns – á pari við brúðkaupsdaginn, fæðingu barns… þeir gerðu þetta viljandi. Konan mín er lögfræðingur, og ég fór að ráði hennar að tala ekki við þá án lögmanns.“ Umboðsmennirnir afhentu honum þá bréf undirritað af bandaríska ríkissaksóknaranum í Texas, þar sem fram kom að hann væri grunaður í ótilgreindri sakamálarannsókn.
Dómsmálaráðuneytið fullyrti að Dr. Haim hefði vísvitandi brotið lög með því að nálgast sjúkraskrár sjúklinga undir fölskum forsendum og afhent upplýsingar úr þeim blaðamanni með þeim ásetningi að valda Texas Children’s Hospital og sjúklingum þess „illgjörnum skaða.“
Réttarhöld yfir Dr. Haim áttu að hefjast í febrúar 2025. Yrði hann fundinn sekur, átti hann yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi og allt að 30 milljón króna sekt. Dr. Haim heldur því fram að ákærurnar gegn sér hafi verið „af pólitískum toga vegna skuldbindinga Biden-stjórnarinnar við ,trans’kynjahugmyndafræði.“
Á fyrsta degi forsetatíðar sinnar gaf Trump forseti út framkvæmdarvaldsskipun sem ógilti viðurkenningu á þriðja kyni á vegabréfum, sem hafði verið samþykkt undir stjórn Bidens, sem og framkvæmdarvaldsskipun sem „endaði vopnavæðingu dómsmálaráðuneytisins.“
Í janúar síðastliðnum voru allar ákærur gegn Dr. Haim „felldar niður með fordæmingu,“ (dismissed with prejudice), sem þýddi að málinu er endanlega lokið, svo ríkisvaldið getur ekki lagt fram frekari ákærur gegn Dr. Haim vegna uppljóstrana hans.

Íris Erlingsdóttir
fjölmiðlafræðingur