Ný skýrsla bandaríska heilbrigðisráðuneytisins segir rannsóknir um slíkar meðferðir „óvandaðar og skortir sönnunargögn“

Íris Erlingsdóttir, fjölmiðlafræðingur, skrifar hér grein um nýja skýrslu bandaríska heilbrigðisráðuneytisins varðandi „kynstaðfestandi“ læknismeðferðir þar sem opinber úttekt er gerð á kynbreytingaraðgerðum.
Á myndinni að ofan kynna Stephen Miller og Karoline Leavitt skýrsluna á blaðamannafundi Hvíta hússins í Washington.
Tilskipun Donald Trumps Bandaríkjaforseta í byrjun ársins um verndun kvenna og barna gegn öfgum transkenninga fól bandaríska heilbrigðisráðuneytinu (Health and Human Services, HHS) að gera yfirlit yfir „læknisfræðilegar rannsóknir um bestu starfshætti í meðferð barna með kynama, kynáttunarama eða aðra sjálfsmyndarringlun“ og birta innan 90 daga.
Skýrsla ráðuneytisins, Gender Dysphoria Report, kom út í síðustu viku og er niðurstaðan sú að bestu starfshættir varðandi „kynstaðfestandi meðferðir“ eru einfaldlega að framkvæma þær alls ekki.
Tiltækar rannsóknir á „kynstaðfestandi meðferðum fyrir börn eru óvandaðar og skortir sönnunargögn sem sýna að slík inngrip virki til að meðhöndla kynáttunarvandamál eða bæta geðheilsu.“ Skýrsluhöfundar sögðu einnig að vanrækt hafi verið að benda á að fæstar rannsóknanna taka nægilegt tillit til hugsanlegs skaða af þessum meðferðum.
Hin 400 blaðsíðna skýrsla, mat gæði 17 kerfisbundinna yfirlita um barnalækningar tengdar kyni. Af þeim 17 voru sjö talin hafa „mikla áhættu á hlutdrægni“ og önnur höfðu sömuleiðis aðferðafræðilega ágalla. Niðurstaða skýrsluhöfunda, að „heildargæði“ sönnunargagna séu „mjög lág“ kemur ekki á óvart og endurspeglar niðurstöður Cass skýrslunnar sem gerð var árið 2024 að tilhlutan bresku heilbrigðisþjónustunnar (NHS) um svipaðar læknisfræðilegar meðferðir: „Þetta er svið með ótrúlega veik sönnunargögn.“
Höfundar gagnrýna „kynstaðfestingar“ líkan læknismeðferða:
„sem einkennist af því að börnum er leyft að stjórna ferlinu. Vanrækt er að gera ítarlegt mat á geðheilsu þeirra og ‘líkamsmarkmið’ sjúklingsins eru látin ráða úrslitum um meðferðarákvarðanir. Í þessu ferli er meðferðarlíkanið hamar Maslow’s, þar sem sérhvert vandamál er nagli.“
Skýrslan sýnir að góðar ástæður eru til þess að gagnrýna rannsóknir á þessu sviði. Í sumum tilvikum fengu læknismeðferðir jákvætt mat jafnvel þó rannsóknir gæfu ekkert tilefni til – annað hvort fóru þvert á eða skorti gögn til stuðnings – slíkrar niðurstöðu og algengustu málsvarnir fyrir læknismeðferðum tengdum kyni fyrir börn, eins og að þær „bjargi lífum,“ eru algjörlega óstuddar gögnum.
Í fréttatilkynningu HHS segir að nöfn skýrsluhöfunda verði ekki birt „að svo stöddu til að viðhalda áreiðanleika ritrýniferlis“ eftir birtingu, en ekki er ólíklegt að verið sé að viðhalda persónulegu öryggi höfundanna og fjölskyldna þeirra.
Hilary Cass, aðalhöfundur Cass skýrslu bresku heilbrigðisþjónustunnar NHS um „kynstaðfestingar“ -meðferðir barna fékk morðhótanir í kjölfar útgáfu skýrslunnar og vinnuveitandi hennar varð að ráða öryggisþjónustu sem ráðlagði Cass að nota ekki almenningssamgöngur.
Rithöfundurinn J.K. Rowling og fjölskylda hafa í fimm ár þurft að hafa öryggisverði 24/7 vegna „þúsunda hótana um morð, nauðgun og ofbeldi,“ sem hún hefur fengið fyrir að vekja athygli á hættunni af „trans“hugmyndafræði. „Ég gæti skrifað tuttugu þúsund orða ritgerð um afleiðingarnar…,“ sagði Rowling á X í kjölfar greinar New York Times í nóvember sl. sem hún ásakaði fyrir að vera tilraun til að endurskrifa raunveruleikann:
„Að segja að ‘trans’aktivistar hafi ‘stundum gengið of langt’ er hreinlega móðgandi. Konur í stjórnmálum hafa neyðst til að ráða persónulega öryggisgæslu að ráði lögreglu. Einn fremstu sérfræðinga Bretlands var ráðlagt að ferðast ekki með almenningssamgöngum vegna eigin öryggis… þeir sem láta þetta brjálæði viðgangast eiga að skammast sín.“
Íris Erlingsdóttir tók saman
https://www.hhs.gov/press-room/gender-dysphoria-report-release.html