Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur falið sendiráðum Bandaríkjanna í Evrópu að virkja andstöðu við ritskoðunarlögin Digital Service Act, DSA, innan ESB. Nýja löggjöfin miðar að því að stjórna tæknirisum og ritskoða óþægilega pólitíska notendur á samfélagsmiðlum. Lögin eru talin ógn við tjáningarfrelsið og efnahagsleg byrði á bandarísk fyrirtæki.
Símskeyti frá Marco Rubio, dagsett 4. ágúst, hvetur sendiráð Bandaríkjanna um alla Evrópu til að grípa til aðgerða til að breyta eða fella úr gildi DSA-lögin, að því er Reuters greinir frá.
Samkvæmt símskeytinu verður áhersla lögð á að:
„byggja upp stuðning meðal gestgjafalanda og annarra hagsmunaaðila til að fella úr gildi og/eða breyta DSA eða öðrum ESB- eða landslögum sem takmarka tjáningarfrelsið á netinu.“
Í símskeytinu er aðgerðum ESB gegn svo kölluðum hatursorðræðum og rangfærslum lýst sem „óhóflegum“ takmörkunum á tjáningarfrelsinu. Sérstakar tillögur og röksemdir eru settar fram sem bandarískir sendiherrar eiga að nota í viðræðum við evrópskar ríkisstjórnir og eftirlitsaðila.
Stjórn Trumps – sem nýtur stuðnings auðkýfinga frá Silicon Valley – hefur áður gagnrýnt DSA fyrir að ritskoða íhaldssöm sjónarmið. Donald Trump forseti hefur gert baráttuna gegn ritskoðun á netinu að aðalmáli sínu og varaforsetinn J.D. Vance hefur einnig sakað ESB um að reyna að þagga niður í Bandaríkjamönnum en ESB neitar því harðlega.
Henna Virkkunen, yfirmaður tæknimála hjá ESB, hefur ekki tjáð sig um fréttirnar. Talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Thomas Regnier, sagði fyrr á þessu ári að DSA og systurlögum DMA yrðu ekki breytt í áframhaldandi viðskiptaviðræðum við Bandaríkin. Regnier sagði á blaðamannafundi í Brussel í mars:
„Löggjöf okkar verður ekki breytt. DMA og DSA eru ekki til umræðu í viðræðum við Bandaríkin.“