Meðfylgjandi meme: Íris Erlingsdóttir, fjölmiðlafræðingur).
Það er hreint sagt ótrúlegt að fylgjast með íslenskum raunveruleika í transálögum, lömuðum frá hvirfli niður í iljar af málræpu kynja- og fjölbreytileikafræðinga á borð við Sóleyju Tómasdóttur og heimspekikennaranum Ásu Lind Finnbogadóttur. Sú fyrrnefnda skrifar grein í Vísi um „bakslagið mikla” í mannréttindabaráttu transfólks vegna „hundaflauts” vondra manna eins og Snorra Mássyni, og sú síðari vísar allri umræðu á bug, því ekki þurfi að rökræða um „þekktar staðreyndir” eins og að kynin séu á óskilgreindan hátt fleiri en tvö.
Einu má slá föstu og það er að trans hugmyndafræðin eru stjórnmál vinstra fólks, báðar dömurnar í sósíalískri pólitík, sú fyrrnefnda var í borgarmálum í boði Vinstri grænna, sú síðarnefnda í Sósíalistaflokknum. Báðar dömurnar neyðast til að þyrla upp ryki kringum „mannréttindabaráttuna,” andi beggja er verðlaunaður með viðurkenningu á mikilvægi þeirra fyrir þann jaðarsetta hóp sem þær þykjast vera fulltrúar fyrir. Opinberar skylmingar gera þær sýnilegar í endalausri stéttabaráttu marxista.
Að halda því fram að það sé „staðreynd” að kynin séu fleiri en tvö er sama bábilja og að tunglið sé gert úr osti. Fyrir lítil börn er það eflaust spennandi hugmynd að hægt sé að sækja endalausan ost til tunglsins á sama hátt og það er spennandi að fara í transtívolí til að íklæðast öðru kyni en náttúran skapaði.

Þegar sósíalistunum gengur ekki að koma stjórnmálastefnu sinni áleiðis meðal kjörbærra landsmanna, þá er ráðist á börnin, því hvað er það annað en árás á ókynþroska börn að vera að telja þeim trú um að hægt sé að breyta sér í annað kyn en það sem þau eru af náttúrunnar hendi? Heill iðnaður er í kringum limlestingu unglinga sem hafa verið ruglaðir í nafni manngæsku og margir séð eftir öllu saman en geta ekki snúið til baka til eðlilegs lífs. Hversu mörg líf trans hugmyndafræðinni hefur tekist að eyðileggja er ekki enn komið á hreint.
Páll Vilhjálmsson, fyrrverandi kennari, var hrakinn úr störfum fyrir skoðanir sínar á þessum málum. Hann hefur mátt sæta atvinnumissi, tekjumissi, aðför að æru sinni og langdregnum málaferlum. Afbrot hans var það sama og Snorra Mássonar: Að benda á hina augljósu staðreynd í aldanna rás sem búið er að sanna eins og að vatn sjóði við 100 gráður: Kynin eru tvö, karl og kona.
Páll Vilhjálmsson skrifar á blog.is um lestur foreldra á Akureyri á kennsluefni í leik- og grunnskólum þar nyrðra. Óhugnaður blasti við:
„fjallað um að kynlíf sé eins og upplifun í tívolíi. Þau börn sem hafa farið í tívolí er ljóst að eftir slíka skemmtiferð vilja börn þangað aftur og aftur. Samkvæmt þessu er 7-10 ára börnum bent á af fulltíða fólki, kennara í opinberu starfi, að líkja megi kynlífskönnun við tívolí. Börn eru […] hvött eða beinlínis blekkt og nörruð inn á könnunarbraut kynlífs eins og um sé að ræða einhvern skemmtigarð. Ungum börnum er bent á sömu síðu að kanna málið betur, það geti verið skemmtilegt og stundum ógnvekjandi þegar kemur að kynlífi og kynlífsathöfnun.
Á bls. 74-75 er efasemdarfræjum bersýnilega dreift inn í sálu og sinni barna sem lesenda þegar rætt er um hvað foreldrar kölluðu þig þegar þú fæddist. Gert er lítið úr því að kynið sé annað hvort strákur eða stelpa eins og það sé möguleiki á einhverju öðru. Á bls. 77 stendur „Stundum sjá þau stóran sníp og halda að það sé typpi. Stundum sjá þau lítið typpi og halda að það sé snípur. Stundum eru þau ekki viss.”
Á bls. 126-130 er talað um sexí og æsandi, í kynferðislegri merkingu við börn á yngra og miðstigi (7-12 ára). Reynt er að snúa út úr merkingu orðsins sem þýðir kynþokkafullur. Hver talar um kynþokkafull börn á þessum aldri nema haldinn sé barnagirnd? (feitletr. pv)”
Raunveruleikinn er sá að kynjafræðingar sem fara með slíkt áreiti á börn í leik- og grunnskólum landsins eru bæði að brjóta á mannréttindum barna sem og foreldrum barnanna sem hafa skyldu samkvæmt lögum að vernda börnin sín. Bæði Snorri Másson og Páll Vilhjálmsson eru fjölskyldumenn með börn og vita hvað þeir tala um.
Akademískir vinstri menn hafa farið út í forarpytt fræðiskylminga sem er ómögulegt fyrir þá að vinna. Þess vegna gerðu þessar konur sjálfum sér og öllum öðrum bestan greiða með því einfaldlega hætta þessu bulli og leyfa börnum að vera börnum í friði.