Cherokee-þjóðin taldi u.þ.b. 16-18 þúsund manns þegar hún var flæmd úr heimkynnum sínum árið 1838. Á sama tíma voru Íslendingar tæplega 50.000 talsins, skinnhoraðir í moldarkofum.

Arnar Þór Jónsson formaður Lýðræðisflokksins ritar pistil á blog.is meðal annars vegna Kvennafrídagsins og Vókismans á Íslandi. Hann skrifar: Á Íslandi er fyrirgefningin ekki í tísku, heldur pirringur, reiði og gremja – í anda Karls Marx. Slagorðið sem áður var ,,öreigar allra landa sameinist“ er nú ,,fórnarlömb allra landa sameinist.“
Arnar Þór Jónsson skrifar:
Sameinumst í einn minnihlutahóp
Á Íslandi er fyrirgefningin ekki í tísku, heldur pirringur, reiði og gremja – í anda Karls Marx. Slagorðið sem áður var ,,öreigar allra landa sameinist“ er nú ,,fórnarlömb allra landa sameinist“.Undir yfirborðinu má greina harða togstreitu ólíkra hópa um fyrsta sætið í keppni um það hverjir séu mestu ,,öreigarnir“ í þessum nýja skilningi. Þetta er barátta sem háð er með hnefann á lofti í reiði sem brýst út þegar minnst varir og Guð forði okkur frá því að samstaða hinna kúguðu hópa bresti nokkurn tímann því þá færi þetta góða fólk að berjast innbyrðis með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Til að forða því að öll þessi gremja fari í óæskilegan farveg þarf að hafa skýra mynd af ,,vonda karlinum“. Og þá er gott að eiga ,,almannaútvarp eins og RÚV“ svo vitnað sé í Gísla Martein, en GM segir RÚV ,,aldrei [hafa] verið mikilvægara en núna á tímum upplýsingaóreiðu og uppgangs þjóðernis-íhaldssinnaðra lýðskrumara …“.
Þeir sem lesið hafa 1984 eftir Orwell geta ekki annað en heyrt í þessu enduróm af ,,tveggja mínútna hatrinu“ sem ríkið í lýsingu Orwells útvarpaði daglega til að stýra tilfinningalífi fólks og beina óánægju þess – og gremju – í stýrðan farveg til að tryggja að fólkið væri stöðugt sameinað í hatri gegn sameiginlegum óvini.
Allt er þetta hluti af okkar daglega íslenska veruleika þar sem þú þarft að tileinka þér ríkisvottaðar, vinstri sinnaðar pólitískar skoðanir, því ef þú samþykkir þær ekki þá færistu sjálfkrafa í flokk ,,hægri-öfgamanna“.
Hér er tillaga fyrir þá sem vilja verja tungumál okkar, menningu, sögu, lagahefð, ósnortið land okkar o.fl. á forsendum ,,nútímalegrar“ Marxískrar stéttabaráttu: Íslendingar eru fámennur minnihlutahópur í heiminum, aðeins milli 300-400 þúsund, á pari við fámenna ættbálka Indíána í Norður Ameríku sem hafa verið undirokaðir af stjórnvöldum þar.
Cherokee-þjóðin er nú um 460.000 manns, en þegar hún var flæmd úr heimkynnum sínum árið 1838 og þvinguð til að ganga Tára-stíginn (e. Trail of tears) þá taldi hún u.þ.b. 16-18 þúsund manns. Á sama tíma voru Íslendingar tæplega 50.000 talsins, skinnhoraðir í moldarkofum. Fámennar þjóðir hljóta að hafa marxískt leyfi til að varðveita sérstöðu sína, tungumál, menningu og hefðir. Er það ekki til þess fallið að auka fjölbreytileikann sem öllum er svo kær? Heimurinn verður fátækari þegar allir eru farnir að tala sama tungumál, horfa á sömu sjónvarpsfroðuna, borða saman verksmiðjuframleidda matinn o.s.frv. Í þessu ljósi hlýtur að vera aðeins tímaspursmál þar til íhaldssinnar sem ,,lýðskruma“ um það að smáþjóðir megi vernda hagsmuni sína og sérkenni verði viðurkenndir sem fámennur, undirokaður hópur sem geti þá tekið þátt í keppninni um hverjir séu mestu fórnarlömb samtímans.
Ég ber þá von í brjósti að einn daginn getum við sameinast í öllum okkar fjölbreytileika um það að vera Íslendingar, með okkar sögu, sérkenni og sérvisku, í stað þess að flokka okkur stöðugt í sundur hvert frá öðru.
