Argentína yfirgefur loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna

COP29, 29. loftslagsráðstefna SÞ, stendur núna yfir í Aserbaídsjan. Að fyrirskipun Javier Milei forseta Argentínu þá hefur argentínska sendinefndin dregið sig til baka og mun ekki taka þátt í frekari samningaviðræðum. Það er engin hætta á að Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, leiki sama leik, þótt full ástæða væri til þess og hún sparaði samtímis íslenskum skattgreiðendum túkall.

Ana Lamas, aðstoðarráðherra umhverfismála í Argentínu, æðsti loftslags- og náttúrufulltrúi Argentínu eftir að Milei setti ráðuneytið á lægri stall, staðfesti úrsögn landsins úr COP29. Lamas sagði samkvæmt Guardian:

„Það er rétt. Við höfum fyrirmæli frá utanríkisráðuneytinu um að taka ekki lengur þátt í ráðstefnunni. Það er það eina sem ég get sagt þér.”

Lamas svaraði ekki spurningu um hvort Argentína ætli að yfirgefa Parísarsamkomulagið líka.

Milei forseti Argentínu hefur reynt að koma landinu á legg eftir margra ára óstjórn og hefur náð langt í þeim málum. Hann lýsir sjálfum sér sem frjálshyggjumanni og hefur andstyggð á hvers kyns pólitískri rétthugsun.

Hann hefur fordæmt meinta loftslagskreppu sem hann segir vera „sósíalíska lygi“ og hefur áður gefið í skyn að landið muni yfirgefa Parísarsamkomulagið.

Hann er góður vinur félaganna Donald Trump og Elon Musk.

Fýlupokinn António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, söng svartan bölsöng sinn í Bakú um endalok jarðar og stiknun alls mannkyns. Hann hefur notað öll ljótustu orð mannkyns til að rassskella fólk til að senda peninga í spillingarhít Sameinuðu þjóðanna. Gulli græni og Bjarni Ben hafa báðir stigið í pontu SÞ og lofað meiri greiðslum af skattfé Íslendinga. Loftslagsráðstefnan stendur yfir í 11 daga!

Fara efst á síðu