„Ákæruvaldið ykkar er fullt af aðgerðasinnum,“ sagði bandarískur lögfræðingur við mig eftir að ég bað hann að segja mér álit sitt á sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Páls Vilhjálmssonar.
Ef það væri aðeins ákæruvaldið. Íslensk stjórnvöld eru uppfull af aðgerðasinnum, sem oft hafa komist í valdamiklar stöður af öðrum ástæðum en hæfni, gáfum og getu.
Ummæli dómsmálaráðherra Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur í Mbl. 23. júlí sl.––Áhyggjuefni að öfgahópar birtist hérlendis––gefa til kynna að þar sé á ferðinni enn einn aðgerðasinninn, að þessu sinni í verktaki fyrir innflytjendur.
Ráðherrann segir um hópinn Skjöld Íslands, að það sé „sannarlega áhyggjuefni að sjá svona hópa spretta upp í löndunum í kringum okkar.“ Engar upplýsingar eru í greininni um „svona hópa“ eða um hópinn sjálfan, sem gætu stutt staðhæfingar ráðherrans um að um sé að ræða „öfgahóp,“ hvorki frá blaðamanninum né ráðherra sem ekki býður upp á frekari skýringar.
Algjör eyðiborgari
Í augum ráðherrans og Mbl. þarfnast það greinilega ekki skýringa við að þeir sem hafa áhyggjur af afleiðingum fjöldainnflutnings fólks, sem á ekkert sameiginlegt með Íslendingum og jafnvel hatar vestræna menningu, eru án efa hatursfullir öfgasinnar, sem byggja á „andúð… eða tortryggni gagnvart fólki sem hefur ekki gert neitt annað heldur en að koma frá öðru landi.“ Ég veit ekki undir hvaða steini ráðherrann býr ef hún telur að stofnun hópsins og svipaðra hópa erlendis sé tilefnislaus. Algjör eyðiborgari. Ekkert að sjá hér, nema auðvitað „útlendingahatur“ og fordóma.
Dómsmálaráðherra og kynsystur hennar í Rangalínuríkisstjórninni ættu að kynna sér skrif og málflutning rithöfundarins Ayaan Hirsi Ali, sem þoldi kynferðislega pyntingar sem barn í Sómalíu og flúði síðar til Hollands, þar sem hún var þingmaður um nokkurra ára skeið áður en hún fluttist til Bandaríkjanna.
Eins og við á um flesta, sem voga sér að gagnrýna Íslam og menningu í löndum múslima, eru vopnaðir öryggisverðir hluti af daglegu lífi Hirsi Ali, sem um árabil hefur gagnrýnt þöggunina sem ríkir um gífurlega aukningu kynferðislegs ofbeldis í borgum Evrópu. Enginn í valdastöðum––eins og dómsmálaráðherra Íslands––vill viðurkenna að vandamálið tengist milljónum innflytjenda, sem flestir eru ungir karlmenn, frá löndum þar sem múslimar eru í meirihluta.
Í bók sinni Bráð: Innflytjendamál, íslam og niðurbrot kvenréttinda (Prey: Immigration, Islam, and the Erosion of Women’s Rights, 2021) staðhæfir Hirsi Ali að innflytjendur frá löndum þar sem múslimar eru í meirihluta ógni þeim réttindum sem evrópskar konur hafa barist fyrir og njóta – ennþá. Múslimskir karlmenn, sem eru vanir kynjaskiptum samfélögum þar sem krafist er kvenlegrar hógværðar og konur eru áreittar út úr opinberu lífi, komu í hópum til Evrópu á síðasta áratug með gamaldags hugmyndir—og ofbeldi til að framfylgja þeim—til hinna nýju heimkynna sinna í Norður-Evrópu.
Evrópubúar taka þátt í eigin kúgun
Fyrir vikið, segir Hirsi Ali, standa evrópskar konur frammi fyrir auknu kynferðislegu áreiti og ofbeldi. Enn verra er að í viðleitni til að vera ekki álitinn útlendingahatari––eða Guð forði, íhaldssamur eða hægri sinnaður––taka frjálslyndir og vinstri sinnaðir Evrópubúar þátt í eigin kúgun, eins og kemur fram í máli dómsmálaráðherra, sem augljóslega setur alla gagnrýni á innflutt menningargildi og venjur frá löndum múslima í einn flokk: hatursfulla fordóma.
Ofbeldi og kvenfyrirlitning af hálfu innflytjenda er dressað upp sem „fjölmenning,“ jafnvel þótt vestrænar konur séu glæpsamlega áreittar, sagt að hylja líkama sína og reknar af götum eigin Evrópuborga.
Í Austurríki árið 2017 voru hælisleitendur grunaðir í 11% allra skráðra nauðgana og kynferðisáreitnismála, þrátt fyrir að vera innan við 1% af heildarfjölda íbúa. Þessi ofbeldisalda er ekki ímyndun alt-hægri áróðurs. Þetta er raunverulegt vandamál sem Evrópa — og heimurinn — getur ekki haldið áfram að hunsa.
Það er staðreynd, segir Hirsi Ali, að ungir karlmenn frá íhaldssömum múslimskum samfélögum koma til Evrópu—og flestir nýkomnir eru ungir karlmenn—eftir að hafa alist upp í menningu sem fyrirlítur konur og í lagaumhverfi sem gróflega mismunar konum. Þetta hefur áhrif á hegðun þeirra, nokkuð sem vestrænir vinstrisinnar og frjálslyndir, sem tilbiðja á altari menningarlegrar afstæðishyggju, vilja ekki viðurkenna,
Hirsi Ali segir að gera verði kröfur um að innflytjendur aðlagist vestrænni menningu og gildum og koma verði í veg fyrir að hægt sé að stofnað heil múslímsk hverfi og bæi, eins og gerst hefur í Frakklandi, Þýskalandi og Svíþjóð, þar sem ekki ein einasta kona sést á götum úti. „Ef evrópskir leiðtogar halda áfram að stinga hausnum í sandinn, munu konur sjá verulega skerðingu á réttindum sínum.“
Prey: Ayaan Hirsi Ali On The Relationship Between Immigration And Sexual Assaults In Europe Viðtal við Ayaan Hirsi Ali

Íris Erlingsdóttir er fjölmiðlafræðingur