Framleiðendum í Þýskalandi sem eru að að minnka við sig eða hugsa um að flytja til útlanda fer fjölgandi. Þýska orkustefnan er í vaxandi mæli að verða staðbundin áhætta fyrir framleiðendur og margir þeirra íhuga að draga úr framleiðslu og flytja erlendis. Nýleg könnun sem þýska iðnaðar- og viðskiptaráðið gerði meðal 3.300 aðildarfyrirtækja staðfestir þessa þróun.
„Orkuvogin“ í ár sýnir einnig að traust til yfirvalda fer þverrandi. Achim Dercks, aðstoðarframkvæmdastjóri viðskiptaráðs sem gerði könnunina segir:
„Traust þýska viðskiptalífsins á orkustefnunni hefur beðið verulegt tjón. Þótt mörg fyrirtæki hafi séð tækifæri í orkuskiptum fyrir eigin fyrirtæki á árunum fyrir 2023, þá vegur áhættan greinilega þyngra núna en tækifærin séð frá þeirra sjónarhóli.“
Þýskaland er frægt fyrir stóriðju sína og mikið af þessari stóriðju þarf ódýra orku til að vera samkeppnishæft á heimsmarkaði, meðal annars fyrir afurðir stálframleiðslu, farartæki og kemísk efni. Þetta eru þau fyrirtæki sem eru líklegust til að íhuga flutning erlendis og/eða skera niður framleiðslu, að sögn þýska blaðsins Welt.
Könnunin sýnir, að 45% allra fyrirtækja með háan raforkukostnað eru að „undirbúa eða framkvæma“ aðgerðir til að skera niður eða flytja sem er sjö prósent hærri tala en í fyrra. Í könnuninni er raforkukostnaður talinn „hár“ ef hann fer yfir 14% af tekjum.
Þau iðnaðarfyrirtæki Þýskalands sem hafa mestan kraft til að flytja búferlum eru þau sem hafa rík tengsl erlendis. Meðal iðnfyrirtækja með yfir 500 starfsmenn ætlar 51% nú þegar að draga úr framleiðslu eða flytja burt. Í fyrra var talan 43%.
Eins og Remix News greindi frá, þá stendur Þýskaland frammi fyrir auknum skuldum og mikilli minnkun iðnaðarframleiðslu, sem kemur til með að fá pólitískar afleiðingar fyrir ríkjandi stjórnvöld. Þýska ríkisstjórnin reynir að vinna gegn þessari þróun og hefur nýlega birt áætlun um „átak til hagvaxtar.“
Hins vegar er Dercks ekki að kaupa þessa áætlun og segir að í henni sé „sjálfbærum lausnum á orkuöflun og orkuverðsmálum algerlega sleppt.“ Varaformaður viðskiptaráðs varar við því, að ástandið fari enn versnandi. Derck segir:
„Sá sem er ekki með þetta á radarnum sínum mun á einhverju augnabliki horfa á afiðnvæðingu landsins okkar.“