Óhætt er að fullyrða í Svíþjóð, að þrátt fyrir stöðugt blaður valdhafa um hið gagnstæða, þá þrengist stöðugt frelsi einstaklingsins vegna innfluttra glæpahópa. Konur geta ekki lengur hreyft sig frjálsar og mikill hópur hræddur við að fara út á götur eftir að rökkva tekur. Og lengi getur vont versnað. Núna berast tölur frá ríkissaksóknara Svíþjóðar að fjöldi barna undir 15 ára sem eru keypt til ofbeldisverka hefur þrefaldast á einu ári.
Fjöldi barna yngri en 15 ára sem eru grunuð um aðild að morðáformum hefur meira en þrefaldast miðað við síðasta ár, samkvæmt nýlegum tölum frá ríkissaksóknara. Fram í júlí á þessu ári hafa 93 börn undir 15 ára aldri verið grunuð, samanborið við 26 á sama tímabili árið 2023, segir í frétt sænska ríkissjónvarpsins SVT.
Sífellt fleiri unglingar tælast til ofbeldisverka
Að sögn lögreglunnar, fer ráðning þessara svo kölluðu „barnahermanna“ núna fram á leifturhraða í gegnum samfélagsmiðla og dulkóðuð öpp. Hanna Paradis hjá þjóðlegu deildinni Noa segir við SVT:
„Mín skoðun er sú, að þetta sé meðvituð stefna hjá glæpasamtökunum. Hún er einstaklega áhrifarík og grimm. Sífellt fleiri unglingar tælast til ofbeldisverka, venjulegir unglingar með eðlilegan hversdagsleika sem búa heima, ganga í skóla og með tómstundir. Einstaklingar sem lögreglan þekkir ekki.“
Stórar fjárupphæðir í boði fyri morð og önnur ofbeldisódæði
Ráðningar hafa orðið sífellt stafrænni og hraðari, þar sem morðverkefni hafa verið auglýst á samfélagsmiðlum og öppum eins og Telegram. Peningarnir sem í boði eru geta numið allt að 13 milljónum íslenskra króna og áhættan augljóslega mikil. Hanna heldur áfram:
„Manni getur fundist upphæð peninganna vera há. En áhættan sem tekin er með því að gera sjálfan sig og fjölskyldu sína að skotmarki mun fylgja á eftir allt lífið. Í því samhengi eru þetta ekki svo miklir peningar.“
Foreldrar verða að axla meiri ábyrgð
Lisa Dos Santos, saksóknari, leggur áherslu á, að börn eigi ekki að hafa aðgang að þessum öppum og hvetur foreldra til að axla meiri ábyrgð á farsímanotkun barna sinna. Lisa segir við SVT:
„Svar mitt er einfalt: NEI, NEI, NEI, börn eiga ekki að vera með þessi öpp. Foreldrar verða að axla mun meiri ábyrgð á snjallsímunum.“
Verður að þrýsta á netrisana að banna öppin sem glæpahóparnir nota
Lögreglan og saksóknarinn benda einnig á nauðsyn þess að fyrirtækin á bak við öppin sem notuð eru taki meiri ábyrgð á því að koma í veg fyrir þessa glæpastarfsemi á vettvangi þeirra. Lisa Dos Santos segir:
„Þeir hafa gert ótal morð möguleg. Ég myndi vilja sjá pressu á tæknirisana til að banna þetta á vettvangi þeirra, þegar svo mörg mannslíf fara forgörðum.“