60 saklausir drepnir og særðir í kjölfar óaldarinnar í Svíþjóð

Því hefur oft verið haldið fram að þeir sem verða fyrir áhrifum af ofbeldi glæpagengja séu næstum alltaf sjálfir þátttakendur í skipulagðri glæpastarfsemi. Núna segir sænska lögreglan að sú mynd sé röng. Frá upphafi árs 2023 hafa að minnsta kosti 60 saklausir verið drepnir eða særðir í skotárásum og sprengjuárásum sem tengjast glæpasamtökum.

August Knutsson, lögreglustjóri hjá aðgerðamiðstöð lögreglunnar, segir í viðtali við sænska útvarpið:

„Þetta er afleiðing af því að átökin eru mikil og hafa verið það í nokkur ár. Við metum það svo að átökin muni halda áfram að vera mikil.“

Samkvæmt tölum lögreglunnar hafa 22 óskyldir aðilar verið drepnir og 38 óskyldir særðir í árásum glæpagengja á síðustu tveimur og hálfu ári.

Í sumum tilfellum hefur ofbeldið beinst gegn ættingjum þekktra glæpamanna – kærustum og öðrum fjölskyldumeðlimum – en það gerist líka að fólk er drepið og sært vegna mistaka – einfaldlega fyrir að vera á röngum stað á röngum tíma.

2023 jókst sérstaklega fjöldi fórnarlamba þriðja aðila og þótt þróunin virðist hafa hægt nokkuð á sér hefur lögreglan þegar skráð að minnsta kosti sex mál árið 2025.

Ungir glæpamenn undir áhrifum eiturlyfja

Að sögn lögreglunnar er mikilvæg skýring á því hvers vegna fleiri saklausir verða fyrir ofbeldinu sú, að morðin og sprengjuárásirnar eru að mestu leyti framin af mjög ungum mönnum – oft án fyrri reynslu og sendir frá öðrum borgum.

Ungu glæpamennirnir hafa engin tengsl við fórnarlömbin og fylgja oft óljósum fyrirmælum. Í mörgum tilfellum hafa þeir aðeins séð mynd af skotmarkinu eða fengið heimilisfang, sem eykur hættuna á rangri auðkenningu og árásum á ranga aðila. August Knutsson bendir á:

„Þetta er afleiðing af því að margir þeirra sem fremja þessi glæpi eru ekki hluti af sjálfum átökunum. Margir eru ungir gerendur sem taka að sér ýmis verkefni. Oft undir áhrifum fíkniefna, með litla staðþekkingu og enga einstaklingsþekkingu. Þeim er falið að vinna voðaverk sem felur í sér mikla hættu á skotárás og sprengingu á rangan aðila.“

Ekki ráðist á ættingjana áður fyrr

Eitt af þeim málum sem hefur vakið mikla athygli átti sér stað í lok apríl á þessu ári þegar móðir og ung dóttir hennar særðust alvarlega í sprengingu á heimili þeirra. Að sögn saksóknarans Daniels Insulander var árásinni beint að algjörlega röngum aðila.

„Þau eru saklaus. Áður var ekki verið að ráðast á ættingja eða kærustu. Það var mjög sjaldgæft að saklaust fólk yrði fórnarlamb slíks. Að fara inn einhvers staðar og skjóta, kasta sprengju eða reyna að brenna hús til grunna, þar sem saklaust fólk er, – þetta er orðið ótrúlega miklu algengara núna en fyrir aðeins fimm árum.“

Fara efst á síðu