11 myrtir og 4000 særðir, flestir hryðjuverkamenn Hezbollah, þegar símboðar þeirra sprungu

Heilbrigðisráðherra Líbanons hefur staðfest að a.m.k. 11 manns hafi verið myrt og yfir 4000 særst, þar af eru 200 manns í lífshættu, eftir sprengjuárás í símboðum fólks, aðallega hryðjuverkamanna Hezbollah í Líbanon. Að sögn IsraelHayom hafa 500 misst sjónina. Samkvæmt Jerusalem Post og öðrum fréttum (sjá X að neðan), þá höfðu liðsmenn Hezbollah nýlega fengið endurnýjaða símboða sem sprungu með þessum afleiðingum.

Jerusalem Post greinir frá því að vestrænir fjölmiðlar eins og New York Times, CNN, Axios m.fl. hafi dregið upp þá mynd, að Ísrael hafi laumað sprengjuefni í símboða sem framleiddir voru í Taiwan. Hafi Ísrael þurft að virkja sprengjurnar í gær vegna þess, að Hezbollah hafi uppgötvað að ekki var allt með felldu.

Fyrirtækið Gold Apollo neitar að hafa búið til símboðana og segir að ungverska fyrirtækið BAC hafi framleitt símboðana undir nafni Gold Apollo af gerðinni AP924.

Ýmsar fréttir greina frá því, að Hezbollah hafi uppgötvað sprengimöguleika símboðanna og hafi sent skilaboð til að vara liðsmenn sína við strax áður en þeir sprungu. Hezbollah segir í fyrstu yfirlýsingu, að „símboðar margra starfsmanna Hezbolla hafi sprungið.“ Segist Hezbollah rannsaka orsakir sprengjanna en margar sögusagnir eru í gangi um málið.

Ríkisstjórn Líbanon kennir Ísrael um sprengingarnar. Utanríkisráðuneyti Líbanon segir:

„Þessi hættulega og vísvitandi stigmögnun Ísraela kemur í kjölfar hótana Ísraelshers um að víkka stórlega út umfang stríðsins gegn Líbanon.“

Ísrael hefur ekki sagt neitt um málið annað en að unnið sé að því, að þeir landsmenn sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna eldflaugaárása frá Líbanon geti snúið aftur til síns heima.

Fara efst á síðu